•`¯`• ÁSDÍS •´¯´•
mánudagur, mars 21, 2005
  Ferðasögur. Það er víst löngu kominn tími á að blogga. Mér hefur bara ekki gefist tími til þess þangað til nú. Ferðin til Ítalíu var alveg frábær. Hún byrjaði reyndar ekki vel, því þegar við lentum í Feneyjum var kominn snjóstormur þar. Maður býst nú ekki við að lenda í snjóstormi á Ítalíu en við vorum sem sagt svona gasalega "heppin". Ítalir kunna auðvitað ekkert að keyra í snjó og það var algjört kaos í bænum. Við sáum það að við höfðum ekkert að gera í Feneyjum þegar ástandið var svona og ákváðum að breyta aðeins ferðaplönunum okkar og keyra strax suður á bóginn í leit að betra veðri. Það tók okkur þrjá tíma að keyra frá flugvellinum upp á hraðbrautina, sem undir venjulegum kringumstæðum ætti að taka ca. 10 mín. Svo vorum við aðra þrjá tíma að aka til Padova sem er í um 40 km frá Feneyjum. Við gáfumst samt ekki upp og héldum ótrauð áfram í suðurátt. Þegar við loks náðum til Flórens, eftir níu tíma keyrslu, var orðið snjólaust. Þar ákváðum við því að leita okkur að gististað. Við eyddum tveimur dögum í Flórens sem er alveg yndisleg borg og héldum svo til Rómar. Eins og ekta túristar skoðuðum við Coloseum og Vadikanið í Róm sem var mikil upplifun. Ég hefði alveg verið til í að vera lengur í Róm en við höfðum planað að fara til Nice til að hitta vini okkar þar, þannig að við verðum bara að fara aftur til Rómar seinna til að skoða það sem við náðum ekki að skoða í þessari ferð. Á leiðinni til Nice gistum við í Pisa og skoðuðum skakka turninn. Það var síðan hreint frábært að keyra meðfram strandlengjunni frá Pisa til Nice. Við ákváðum að fara hluta af leiðinni á einhverjum sveitavegi sem sikk-sakkaði upp og niður fjallshlíðarnar sem lágu út við sjóinn. Þetta tafði för okkar auðvitað heilmikið en það var vel þess virði að aka þessa fallegu leið. Ninnó og Berglind tóku svo vel á móti okkur í Nice. Þau eru að vinna á lúxushóteli í gömlu miðaldarþorpi sem liggur uppi á einum fjallstoppnum út við sjóinn. Útsýnið þaðan var alveg meiriháttar enda hefur veitingastaður hótelsins verið valinn rómantískasti veitingastaður heims. Við leyfðum okkur þann munað að borða á hótelinu en áttum því miður ekki efni á að borða á sjálfum veitingastaðnum, heldur fengum við okkur tapasrétti á barnum. Einhvern tíma þegar við verðum rík komum við þangað aftur og borðum á þessum fína veitingastað. Eftir tvær nætur í Nice keyrðum við svo aftur til Feneyja. Allur snjórinn var farinn þaðan, þannig að við náðum aðeins að skoða okkur um áður en við flugum aftur heim til Köben.

Ég stoppaði ekki lengi við heima hjá mér því strax daginn eftir heimkomuna fór ég með kórnum mínum til Gautaborgar á kóramót íslenskra kóra erlendis. Það var mjög skemmtilegt og þar fékk ég tækifæri til að stjórna 140 manna kór. Eftir að vera búin að syngja allan laugardaginn var haldin veisla um kvöldið. Við fengum mjög góðan mat og svo sá hver kór um skemmtiatriði. Kvartettinn minn sá um skemmtiatriðið fyrir hönd Stöku (nýja kórsins míns) og stóðum við okkur bara nokkuð vel. Við sungum Bohemian rhapsody í kórútsetningu og það tóku allir vel undir.

Þetta er orðið ansi langt blogg þannig að ég held ég láti staðar numið hér. Nú er ég á leiðinni út á völl á sækja Fríðu systur og Klöru frænku mína sem ætla að vera hjá mér yfir páskana.

Gleðilega páska!! 
þriðjudagur, mars 01, 2005
  Halló halló!! Það er alveg heilmikið búið að gerast í mínu lífi síðan ég bloggaði síðast. Helstu fréttirnar eru þær að hann Finnsi minn kom mér gjörsamlega á óvart um síðustu helgi með því að skella sér niður á skeljarnar. Brúðkaupsundirbúningur er strax kominn á fullt. Við erum að spá í ekta sveitabrúðkaupi í Kjósinni í júlílok. Ég ætla því að biðja vini og ættingja um að gera engin plön þá. Dagsetningin er reyndar ekki alveg komin á hreint ennþá, því það er ennþá verið að athuga hvort við fáum kirkjuna og Félagsgarð, sem er samkomuhús þeirra Kjósverja.
Aðrar fréttir eru þær að við erum að fara til Ítalíu á fimmtudaginn. Planið er að fljúga til Feneyja, taka svo bíl þar og keyra eitthvað um Ítalíu, jafnvel að fara alla leið suður til Rómar. Svo ætlum við að enda í Nice hjá Berglindi og Ninnó. Þetta verður örugglega mjög fín ferð og ég vona bara að veðrið verði skaplegt. Maður er nefnilega endalaust að heyra sögur af brjálaðri snjókomu þarna suðurfrá á meðan það er stuttbuxnaveður á Grænlandi og á Íslandi. 

online

Blogg beint fra Köben

Blogg
 • Gengið
 • Finnsi minn
 • Arndís frænka
 • Guðinn í Köben
 • Berglind Rós
 • Óli bróðir
 • Fríða systir
 • Ragna + Halldór
 • Svana beib
 • Soffía
 • Myndir
  Free Photo Albums from Bravenet Free Photo Albums from Bravenet

  Gestabók
  Sign Guestbook

  View Guestbook

  Eldra blogg
  október 2003 / nóvember 2003 / desember 2003 / janúar 2004 / febrúar 2004 / mars 2004 / apríl 2004 / maí 2004 / júní 2004 / júlí 2004 / september 2004 / október 2004 / nóvember 2004 / desember 2004 / janúar 2005 / febrúar 2005 / mars 2005 / apríl 2005 /


  Powered by Blogger