•`¯`• ÁSDÍS •´¯´•
föstudagur, maí 28, 2004
  Tónleikar. Ég skellti mér á tónleika með MÚM í gær og var alveg heilluð. Þetta voru frábærir tónleikar en skemmtilegast af öllu var þó að hitta Ólöfu frænku mína sem er að spila með hljómsveitinni. Eftir tónleikana fór ég með henni baksviðs og síðan var haldið í partý þarna í nágrenninu sem stóð yfir þangað til hljómsveitin þurfti að koma sér í rútuna til þess að leggja af stað til Noregs. Það er ekki laust við að ég öfundi hana frænku mína svolítið af þessu líferni. Þau keyra alltaf á nóttunni og svo vakna þau í nýrri borg eða jafnvel nýju landi og spila svo tónleika á hverju kvöldi. En ég hugsa samt líka að þetta geti verið þreytandi til lengdar.
 
þriðjudagur, maí 25, 2004
  Innipúkinn!! Það er lítið spennandi að gerast hjá mér þessa dagana. Síðasti kennsludagur var í súðustu viku og nú fer ég varla út úr húsi vegna verkefnavinnu. Ég á að skila tveimur stórum ritgerðum um miðjan júní, þannig að það verður nóg að gera þangað til. Öll þessi seta er reyndar alveg að gera útaf við mig. Í gær fékk ég meira að segja náladofa í rassinn vegna of mikillar setu.  
þriðjudagur, maí 18, 2004
  Sigurvegarinn!! Jæja, þá er þessi blessaða Júró-helgi afstaðin og fólk misánægt með úrslitin eins og gengur og gerist. Ég get samt ekki kvartað þar sem ég stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins. Við hjúin fórum nefnilega í Júró-partý þar sem kvenfólkinu bar skylda til að mæta í 80's búning og karlarnir áttu að mæta í pönkgalla. Fyrr um daginn fórum við Finnur þess vegna á rauðakrosssöluna og fjárfestum í búningum fyrir kvöldið. Bleiki jakkinn með stóru axlapúðunum í stærð 48 vakti mikla lukku og ég krækti mér í búningaverðlaunin og fékk farandkind að launum. Ég er auðvitað ótrúlega ánægð með sigurinn og vil þakka mömmu og pabba fyrir að hafa alltaf kennt mér að fylgja nýjustu straumunum í heimi tískunnar.
Ég var samt hálfsvekkt yfir að Finnur hafi ekki hlotið verðlaun. Það var ekkert smá mikið mál að finna á hann búning, því það var sama hvað hann mátaði, alltaf líktist hann meira leðurhomma en pönkara. Þess vegna ákváðum við bara að fara alla leið í að gera drenginn að ekta leðurhomma og enduðum með að fjárfesta í svörtum spandexbuxum, yfirvaraskeggi og tönnum...já, útkoman var Freddie Mercury!!! Finni líkaði gervið svo vel að héðan í frá geta allir búist við að sjá einn krullhærðan Freddie rölta um stræti Nørrebro í kongsins Køben.  
fimmtudagur, maí 13, 2004
  Eurovision. Ég er hundfúl yfir að Danir hafi ekki komist áfram úr undankeppninni í Eurovision í gær. Þetta þýðir að nú getum við ekki hringt inn og kosið Ísland. Reyndar hlakkar alltaf svolítið í mér þegar Dönum gengur illa, því þeir eru alltaf svo sigurvissir. Kannski að þeir séu svolítið líkir Íslendingum að því leytinu til.  
mánudagur, maí 10, 2004
  Setjið ykkur í stellingar, nú kemur langur pistill!! Fólk er farið að kvarta yfir því að ég sé orðin svo löt að blogga,þannig að ég ætla að reyna að skrifa smá pistil núna. Það er bara spurning hvar maður eigi að byrja. Hmm.... já, helstu fréttir eru þær að nú er ég orðin 27 ára... úff!!! Til að fagna þessu merkisafmæli fórum við hjúin ásamt öðru pari út að borða á laugardaginn fyrir rúmri viku, á ástralskan stað þar sem við gæddum okkur á krókodílum og kengúrum. Nú, svo hófst vinnu-/skólavikan á mánudaginn sem er nú ekkert merkilegt, þannig að nú ætla ég að hoppa yfir smá kafla í lífi mínu og leyfa lesendum mínum að fræðast um það hvað var brallað um helgina. Þetta var löng helgi hér í Danmörku þar sem föstudagurinn var frídagur, svokallaður "store bededag". Þess vegna skellti ég mér aðeins út á lífið strax á fimmtudagskvöld, á hátíð í Arkitektarskólanum með vinkonu minni sem er í þeim skóla. Svo var lítið sofið þá nótt því ég þurfti að vakna snemma á föstudagsmorgun til að fara á kóramót íslenskra, grænleskra og færeyskra kóra. Það var sungið allan föstudaginn og svo voru tónleikar um kvöldið þar sem hver kór söng tvö til þrjú lög. Því miður get ég ekki monntað mig af kórnum mínum í þetta skiptið, því við sungum vægast sagt hræðilega. Ég tók þó fljótt gleði mína á ný eftir að barinn var opnaður. Þá hófst bara svona hefðbundið kórpartý, með tilheyrandi söng og gleði. Laugardagurinn var síðan tekinn snemma, því kóræfingarnar hófust strax upp úr kl 9. Dagurinn fór allur í æfingar og síðan gafst utanaðkomandi fólki kostur á að hlusta á afraksturinn á tónleikum um kvöldið þar sem allur hópurinn söng. Á tónleikunum frumfluttum við meðal annars nýtt verk sem var sérstaklega samið fyrir kóramótið. Eftir tónleikana borðaði allur hópurinn saman og svo voru skemmtiatriði og ball. Ég og þrír aðrir vorum með smá heimatilbúið skemmtiatriði sem vakti mikla lukku. Við sungum "I'm a barbie girl" í fallegri kórútsetningu í miðaldarstíl. Eftir að ballið hófst dansaði ég eins og ég ætti lífið að leysa á milli þess sem ég vann á barnum, en kórinn minn hafði nefnilega fengið það skemmtilega hlutverk að sjá um barinn. Ég og Hrafnhildur vinkona mín beittum ýmsum ráðum til að reyna að auka söluna...við lékum meðal annars hlutverk hins syngjandi barþjóns sem gafst mjög vel. Það var brjálað að gera á barnum, enda kunna Grænlendingar, Færeyingar og Íslendingar alveg að hella í sig. Ég staulaðist svo heim einhvern tímann milli kl. 7 og 8 og er búin að komast að því að ég er orðin of gömul fyrir svona partýstand. Ég get ekki lýst því hvað ég var þreytt í gær og kom engu í verk og ég sem þarf að skila ritgerð á miðvikudaginn. 27 ára konur eiga greinilega bara að taka því rólega, hugsa um börnin sín og kannski skiptast á uppskriftum við hinar kellingarnar í saumaklúbbnum.  

online

Blogg beint fra Köben

Blogg
 • Gengið
 • Finnsi minn
 • Arndís frænka
 • Guðinn í Köben
 • Berglind Rós
 • Óli bróðir
 • Fríða systir
 • Ragna + Halldór
 • Svana beib
 • Soffía
 • Myndir
  Free Photo Albums from Bravenet Free Photo Albums from Bravenet

  Gestabók
  Sign Guestbook

  View Guestbook

  Eldra blogg
  október 2003 / nóvember 2003 / desember 2003 / janúar 2004 / febrúar 2004 / mars 2004 / apríl 2004 / maí 2004 / júní 2004 / júlí 2004 / september 2004 / október 2004 / nóvember 2004 / desember 2004 / janúar 2005 / febrúar 2005 / mars 2005 / apríl 2005 /


  Powered by Blogger