•`¯`• ÁSDÍS •´¯´•
þriðjudagur, mars 30, 2004
  Kórlíf. Ég er aldeilis búin að eyða miklum tíma með kórnum undanfarna daga. Á föstudaginn héldum við nokkurs konar árshátíð heima hjá mér. Þetta var mjög skemmtilegt, við borðuðum saman, drukkum og sungum langt fram eftir nóttu. Það var reyndar ansi þröngt um okkur, vel yfir 20 manns þurftu að deila með sér 47 fermetrum og ég spyr: ,,Af hverju mætir allt þetta fólk ekki á æfingar?" Það lofuðu reyndar allir að mæta á æfingu á miðvikudaginn, þannig að ég er spennt að sjá hversu margir standa við það.
Á laugardaginn var svo útflutningspartý heima hjá Jóa, kórfélaga og vini. Ég lét mig ekki vanta, enda síðasti séns að rústa íbúðinni hans áður en hann flytur. Þar voru aftur mættir nokkrir partýglaðir félagar úr kórnum, sem þó þurftu að hafa hemil á sér þar sem við þurftum að vakna snemma á sunnudagsmorgun til að syngja í messu. Ég held meira að segja að íbúðin hafi verið nokkuð heil eftir þetta partý.
Um næstu helgi er svo stefnt á að fara í kórferðalag til Lálands. Ég er búin að vera í sambandi við Sólrúnu Bragadóttur fyrrverandi söngkennara minn og hún ætlar að vera með einhvers konar söngnámskeið fyrir okkur þessa helgi. Kórinn á örugglega eftir að græða mikið á þessu og ég efast ekki um að ég eigi eftir að læra eitthvað af henni líka.
 
sunnudagur, mars 21, 2004
  Sunnudagsþreyta. Maður er bara alveg uppgefinn eftir helgina, enda erfið helgi. Föstudagurinn var með frekar hefðbundnu sniði. Það er komin hefð á það að kíkja til Ninnós og Berglindar á föstudögum þegar strákarnir eru búnir á fótboltaæfingu. Í þetta skiptið var þó tekið heldur hraustlegar á því en vanalega, enda ekki á hverjum degi sem menn útskrifast úr grunndeild kokksins með stæl. Til hamingju með árangurinn Ninnó!!!
Ég dreif mig svo á lappir upp úr hádegi í gær til þess að fara í upptökur til Ásgeirs sem titlar sig Hvítaskáld og er kvikmyndagerðamaður, leikari og tónskáld hér í borg. Hann var að ljúka við að semja nýjan sumarsmell sem ber heitið "Sumarið kom inn um gluggan" og á örugglega eftir að gera allt vitlaust á útvarpsstöðvum Íslands í sumar. Upptökurnar tókust vel og ég söng inn á þetta einhverjar bakraddir fyrir Hvítaskáldið. Eftir að hafa náð smá hænublundi í gærkvöldi, skellti ég mér aftur í partýgallan, og fór og hitti Finn og nokkra félaga hans á klassastað, þar sem meðalaldurinn var í kringum 45 ár. Það var samt ekkert verra þó við værum langyngst þarna inni, ég söng hástöfum með gömlu diskósmellunum og Bítlalögunum. Söngnum var síðan haldið áfram seinna um kvöldið á kareókíbarnum Sam's Bar.
Nú er svo komið að því að fara í partýgírinn einu sinni enn, þar sem ég er á leið í Kristjaníu á tónleika með Eivör Pálsdóttur. Það verður örugglega gaman. Meira síðar.
 
fimmtudagur, mars 18, 2004
  Vor í lofti. Skyndilega kom vorið hér í Köbenborg og ég er búin að taka fram hjólið á ný. En því miður kemur hjólið ekki vel undan vetri. Það er allt orðið riðgað og ljótt og svo virkar bara önnur bremsan og hin er í ekkert alltof góðu standi heldur. Þegar ég þarf að stansa snögglega neyðist ég því til að setja annan fótinn í götunna og reyna að bremsa að hætti Freds Flinstone, sem fer auðvitað ekkert sérlega vel með nýju prinsessuskóna mína. Nú vona ég bara að ég fái nýtt hjól í afmælisgjöf frá Finni!! (vona að hann lesi þetta).

Í gær fór hitinn upp í 15 gráður og það var um 10 stiga hiti í dag og sól. Ég naut veðursins í dag með því að rölta niður í bæ eftir skóla með Berglindi. Við keyptum efni í jakka sem hún ætlar að sauma á mig og svo sátum við úti í blíðunni og slúðruðum alveg þangað til sólin var komin svo lágt á loft að okkur var farið að kólna ansi hressilega. Mér varð reyndar svo kalt að ég skildi hjólið eftir í bænum og tók strætó heim. Finnur hneikslaðist mikið yfir aumingjaskapnum í mér, svo ætli ég neyðist ekki til að sýna hörku og hjóla á því heim eftir okkar vikulega fimmtudagsbar í kvöld. 
sunnudagur, mars 14, 2004
  Komnar nýjar myndir!!! Þá er aftur kominn sunnudagur. Þessi helgi var með rólegasta móti. Það er varla að maður þori að segja frá því, en ég eyddi föstudagskvöldinu í "Fields", nýju verslunarmiðstöðinni og tókst barasta að eyða smá pening. Í gærkvöld var svo tussuteiti heima hjá Diljá. Þar voru mættar 8 tussur sem tengjast flestar í gengum sönginn. Þetta var bara svona dæmigert tussuteiti, mikið slúðrað og ennþá meira borðað. Ég borðaði svo hryllilega yfir mig að ég var ennþá södd þegar ég vaknaði í morgun!! Annars held ég að vorið sé loksins komið hér í Danmörku. Það var sól og blíða í dag, sem kom mér í svo gott skap að mér fannst ég verða að kaupa mér fleiri sumarföt. Þannig að eftir að Finnur var búinn að keppa í handbolta, dró ég hann með mér í "Fields" til að eyða ennþá meiri pening. Nú held ég að buddan leyfi ekki fleiri Fieldsferðir á næstunni.

Annars var ég að setja inn nýjar myndir á myndasíðuna. Þar eru nokkrar partýmyndir og svo myndir frá þorrablótskvöldinu.  
föstudagur, mars 12, 2004
  Allir að hamstra. Vikan hófst með opnun hinnar merku verslunarmiðstöðvar "Fields". Fyrsta daginn komu hvorki fleiri né færri en 200.000 manns í miðstöðina. Það eru tveir þriðju af íslensku þjóðinni!!! Við Finnur kíktum aðeins fyrsta daginn, en það var ekkert hægt að versla, langar biðraðir til að komast inn í búðirnar og svo ennþá lengri biðraðir við kassana. Svo las ég það einhvers staðar að það væri búið að kæra einn fyrir líkamsárás, svo hart var barist um opnunartilboðin. Fólk var líka að versla inn fyrir næstu árin. Við mættum einni konum sem var búin að versla svo marga pakka af dömubindum að þau koma til með að endast henni næstu tvö ár!!! Ég meina... hvernig dettur fólki í hug að hamstra dömubindi???

 
sunnudagur, mars 07, 2004
  Loksins kom nettengingin. Heilsan er að komast í lag og aðrar góðar fréttir eru þær að við erum loksins komin með nettengingu. Kannski að maður reyni núna að vera aðeins duglegri við að blogga. Það er reyndar lítið markvert búið að gerast síðan ég bloggaði síðast. Ég er búin að vera að vinna mjög mikið og hef því haft lítinn tíma til að sinna skólanum. Alltaf ætlar maður svo að nýta helgarnar í lestur, en af einhverjum sökum fer sú áætlun alltaf út um þúfur. Nú er t.d. kominn sunnudagur og ég er ekki enn byrjuð á ritgerð sem ég á að skila á miðvikudagsmorgun. Helgin er bara búin að líða alltof hratt. Ég var að vinna á föstudaginn og fór eftir vinnu að þjóna í sendiráðinu. Ég var svo heppin að fína og flotta fólkið var ekkert alltof hrifið af hvítvíninu þannig að ég hirti eitthvað af afgöngunum og tók þá með heim til Ninnós og Berglindar þar sem haldið var upp á það að páskabjórinn er kominn í verslanir. Gærdagurinn fór aðallega í leti, en við kíktum reyndar aðeins út úr húsi í gærkvöld til að sýna smá lit. Nú er strembin vika framundan, þannig að það er best að fara að koma einhverju í verk.
Sæl að sinni. 

online

Blogg beint fra Köben

Blogg
 • Gengið
 • Finnsi minn
 • Arndís frænka
 • Guðinn í Köben
 • Berglind Rós
 • Óli bróðir
 • Fríða systir
 • Ragna + Halldór
 • Svana beib
 • Soffía
 • Myndir
  Free Photo Albums from Bravenet Free Photo Albums from Bravenet

  Gestabók
  Sign Guestbook

  View Guestbook

  Eldra blogg
  október 2003 / nóvember 2003 / desember 2003 / janúar 2004 / febrúar 2004 / mars 2004 / apríl 2004 / maí 2004 / júní 2004 / júlí 2004 / september 2004 / október 2004 / nóvember 2004 / desember 2004 / janúar 2005 / febrúar 2005 / mars 2005 / apríl 2005 /


  Powered by Blogger