•`¯`• ÁSDÍS •´¯´•
laugardagur, apríl 09, 2005
  Grasekkjan bloggar loksins!! Nú er ég ein og yfirgefin hérna í Köben. Finnur er sem sagt fluttur til Íslands og er búinn að vera heima í rúma viku. Ég fór reyndar óvænt með honum heim um síðustu helgi. Við ákváðum það bara kvöldið fyrir brottför að ég færi með og létum engan vita af því að ég væri að koma. Mamma og pabbi voru heldur betur hissa að sjá mig. Þetta var samt engin afslöppunarhelgi fyrir mig þar sem ég var bara á Íslandi í einn og hálfan sólarhring og þurfti að heilsa upp á marga fjölskyldumeðlimi. Vinina heimsæki ég í næstu ferð.

Annars hef ég haft lítinn tíma til að láta mér leiðast þessa viku sem ég er búin að vera ein úti. Ég er búin að vera að vinna töluvert og svo eru tónleikar hjá Kirkjukórnum um næstu helgi og það er heilmikið að gera í undirbúningi fyrir þá. Allur fimmtudagurinn fór svo í að versla húsgögn sem við ætlum að flytja með okkur heim til Íslands. Mikið var nú gaman að versla svona mikið í einu. Ég valdi leðursófa og tvo stóla við hann, sófaborð og borðstofusett. Í gærkvöldi var svo partý hjá kórnum og ég var mætt mjög snemma til að elda ofan í liðið ásamt tveimur söngsystrum. Maturinn var mjög góður og partýið skemmtilegt. Þetta var bara svona ekta kórpartý, hlustuðum á gömul íslensk lög og sungum fram eftir nóttu. Þrátt fyrir að hafa farið seint að sofa vaknaði ég snemma í morgun og er núna uppfull af orku. Er að spá í að fara að laga aðeins til í íbúðinni og fara svo út að hreyfa mig eitthvað. Ég sakna þess sko ekkert að fá mér í glas og eiga svo ónýtan dag daginn eftir. 
mánudagur, mars 21, 2005
  Ferðasögur. Það er víst löngu kominn tími á að blogga. Mér hefur bara ekki gefist tími til þess þangað til nú. Ferðin til Ítalíu var alveg frábær. Hún byrjaði reyndar ekki vel, því þegar við lentum í Feneyjum var kominn snjóstormur þar. Maður býst nú ekki við að lenda í snjóstormi á Ítalíu en við vorum sem sagt svona gasalega "heppin". Ítalir kunna auðvitað ekkert að keyra í snjó og það var algjört kaos í bænum. Við sáum það að við höfðum ekkert að gera í Feneyjum þegar ástandið var svona og ákváðum að breyta aðeins ferðaplönunum okkar og keyra strax suður á bóginn í leit að betra veðri. Það tók okkur þrjá tíma að keyra frá flugvellinum upp á hraðbrautina, sem undir venjulegum kringumstæðum ætti að taka ca. 10 mín. Svo vorum við aðra þrjá tíma að aka til Padova sem er í um 40 km frá Feneyjum. Við gáfumst samt ekki upp og héldum ótrauð áfram í suðurátt. Þegar við loks náðum til Flórens, eftir níu tíma keyrslu, var orðið snjólaust. Þar ákváðum við því að leita okkur að gististað. Við eyddum tveimur dögum í Flórens sem er alveg yndisleg borg og héldum svo til Rómar. Eins og ekta túristar skoðuðum við Coloseum og Vadikanið í Róm sem var mikil upplifun. Ég hefði alveg verið til í að vera lengur í Róm en við höfðum planað að fara til Nice til að hitta vini okkar þar, þannig að við verðum bara að fara aftur til Rómar seinna til að skoða það sem við náðum ekki að skoða í þessari ferð. Á leiðinni til Nice gistum við í Pisa og skoðuðum skakka turninn. Það var síðan hreint frábært að keyra meðfram strandlengjunni frá Pisa til Nice. Við ákváðum að fara hluta af leiðinni á einhverjum sveitavegi sem sikk-sakkaði upp og niður fjallshlíðarnar sem lágu út við sjóinn. Þetta tafði för okkar auðvitað heilmikið en það var vel þess virði að aka þessa fallegu leið. Ninnó og Berglind tóku svo vel á móti okkur í Nice. Þau eru að vinna á lúxushóteli í gömlu miðaldarþorpi sem liggur uppi á einum fjallstoppnum út við sjóinn. Útsýnið þaðan var alveg meiriháttar enda hefur veitingastaður hótelsins verið valinn rómantískasti veitingastaður heims. Við leyfðum okkur þann munað að borða á hótelinu en áttum því miður ekki efni á að borða á sjálfum veitingastaðnum, heldur fengum við okkur tapasrétti á barnum. Einhvern tíma þegar við verðum rík komum við þangað aftur og borðum á þessum fína veitingastað. Eftir tvær nætur í Nice keyrðum við svo aftur til Feneyja. Allur snjórinn var farinn þaðan, þannig að við náðum aðeins að skoða okkur um áður en við flugum aftur heim til Köben.

Ég stoppaði ekki lengi við heima hjá mér því strax daginn eftir heimkomuna fór ég með kórnum mínum til Gautaborgar á kóramót íslenskra kóra erlendis. Það var mjög skemmtilegt og þar fékk ég tækifæri til að stjórna 140 manna kór. Eftir að vera búin að syngja allan laugardaginn var haldin veisla um kvöldið. Við fengum mjög góðan mat og svo sá hver kór um skemmtiatriði. Kvartettinn minn sá um skemmtiatriðið fyrir hönd Stöku (nýja kórsins míns) og stóðum við okkur bara nokkuð vel. Við sungum Bohemian rhapsody í kórútsetningu og það tóku allir vel undir.

Þetta er orðið ansi langt blogg þannig að ég held ég láti staðar numið hér. Nú er ég á leiðinni út á völl á sækja Fríðu systur og Klöru frænku mína sem ætla að vera hjá mér yfir páskana.

Gleðilega páska!! 
þriðjudagur, mars 01, 2005
  Halló halló!! Það er alveg heilmikið búið að gerast í mínu lífi síðan ég bloggaði síðast. Helstu fréttirnar eru þær að hann Finnsi minn kom mér gjörsamlega á óvart um síðustu helgi með því að skella sér niður á skeljarnar. Brúðkaupsundirbúningur er strax kominn á fullt. Við erum að spá í ekta sveitabrúðkaupi í Kjósinni í júlílok. Ég ætla því að biðja vini og ættingja um að gera engin plön þá. Dagsetningin er reyndar ekki alveg komin á hreint ennþá, því það er ennþá verið að athuga hvort við fáum kirkjuna og Félagsgarð, sem er samkomuhús þeirra Kjósverja.
Aðrar fréttir eru þær að við erum að fara til Ítalíu á fimmtudaginn. Planið er að fljúga til Feneyja, taka svo bíl þar og keyra eitthvað um Ítalíu, jafnvel að fara alla leið suður til Rómar. Svo ætlum við að enda í Nice hjá Berglindi og Ninnó. Þetta verður örugglega mjög fín ferð og ég vona bara að veðrið verði skaplegt. Maður er nefnilega endalaust að heyra sögur af brjálaðri snjókomu þarna suðurfrá á meðan það er stuttbuxnaveður á Grænlandi og á Íslandi. 
mánudagur, febrúar 07, 2005
  Veikindi og þorrablót! Ég verð yfirleitt ekki veik nema svona einu sinni á ári og nú gerðist það auðvitað þegar ég síst mátti vera að því. Það voru nefnilega æfingar hjá nýja kórnum mínum alla helgina, samtals sex tíma æfing á laugardeginum og annað eins á sunnudeginum og svo áttum við Finnur miða á þorrablótið á laugardagskvöldið. Ég varð sem sagt að sleppa æfingunum á laugardaginn en ákvað þó að fara allavega í matinn á þorrablótið þar sem ég var nú búin að borga fyrir miðann. Íslendigafélagið hafði ákveðið að mun meiri klassi skyldi verða yfir blótinu í ár en í fyrra þegar blótið var haldið í einhverri skemmu í Kristjaníu. Nú í ár fengu Íslendingar í Köben nefnilega að gæða sér á súrmat og öðrum viðbjóði á glæsilegum veitingastað í Tívolíinu. Þangað mætti ég, ákveðin í að reyna að gera gott úr kvöldinu þrátt fyrir horið og hitann. Salurinn var ótrúlega flottur og fólk var auðvitað í sínu fínasta pússi. Karl Ágúst Úlfsson var veislustjóri og eftir að hafa hlegið máttleysislega að hálfmisheppnuðum sögum hans, var borðað og svo sungið undir stjórn Valgeirs Guðjónssonar. Mér var sagt að maturinn hafi verið ágætur, en ég fann reyndar ekkert bragð af hönum sökum kvefs og hefði því alveg eins getað úðað í mig hákarli og súrsuðum hrútspungum í stað hangikjötsins. Þegar búið var að syngja Popplag í G-dúr og öll hin lögin í söngheftinu hófst svo ball með einni af þessum íslensku "sólar"hljómsveitum, hljómsveitinni Á móti sól. Ég var nú ekki alveg með orku til þess að dansa mikið en fannst þó skylda að vera með í hringdansinum. Eftir að hafa lent á sóðalegum sveittum karli sem þrýsti mér fast upp að sér í dansinum, var ég eiginlega búin að fá nóg og vildi fara að fara heim. Finnur greyið var rétt að komast í stuð, en gerði það þó auðvitað fyrir mig að fylgja mér heim. Daginn eftir fór ég svo að hlusta á söngæfingu hjá kórnum (gat ekkert sungið sjálf) og að vinna á þorrablóti eldri borgara í Jónshúsi. Þá frétti ég það að líklega fengist ekki að halda þorrablót Íslendinga aftur í þessum fallega sal í Tívolíi að ári. Þar hafði eitthvað verið brotið og bramlað og einhver eða einhverjir fluttir í burtu í sjúkrabíl að loknum slagsmálum. Er þetta ekki bara týpískt þegar Íslendingar koma saman?? Ég held við séum bara best geymd í vöruskemmunni í Kristjaníu!!
 
þriðjudagur, janúar 18, 2005
  Bloggedíblogg!! Ætli sé ekki best að verða við óskum Halldórs um að blogga aðeins meira. Annars held ég að það séu allir hættir að lesa þetta og teljarinn er farinn að telja afturábak...hehe.

Nýja árið byrjar bara vel. Ég kom út í sól og blíðu þann 6. jan. og var mjög fegin að vera laus við skaflana og skafrenninginn á Íslandi. Helgina eftir að ég kom út gerði hins vegar alveg kolvitlaust veður og fór vindurinn upp í 27 metra á sekúndu. Þá fannst mér allt í einu skaflarnir og skafrenningurinn ekki vera neitt neitt.
Annars er ég ekki mikið búin að fara út úr húsi á nýju ári. Ég er komin á skrið í ritgerðinni og sit bara fyrir framan tölvuna nær allan daginn. Inn á milli gríp ég þó í jólabækurnar, sem ég er reyndar búin að klára núna. Þá verður ekki lesið næst fyrr en í kringum næstu jól, nema þá skólabækurnar.
Kórastarfið er að fara af stað aftur og það verður mikið að gera í söngbransanum á næstunni. Við erum m.a. að æfa fyrir kóramót sem fer fram í Gautaborg um miðjan mars og svo verða tónleikar hjá nýja kórnum mínum í sama mánuði. Mars verður reyndar alveg rosalega "busy" mánuður því við Finnur erum jafnvel að hugsa um að skella okkur til Frakklands í byrjun mars bæði til að heimsækja vini okkar þar og líka til að halda uppá 10 ára afmælið. Já, ótrúlegt en satt þá erum við bráðum búin að vera saman í 10 ár. Það er líka um að gera að reyna að ferðast svolítið á meðan við búum ennþá í Danmörku, því það er svo hentugt að ferðast héðan. Tíminn fer að verða naumur, því það styttist óðum í það að við flytjum heim. Finnur er einmitt að fara í atvinnuviðtal á föstudaginn á Íslandi og ef allt gengur að óskum komum við heim með vorinu.


 
mánudagur, janúar 03, 2005
  Gleðilegt ár!! Vá, ég trúi því varla að það sé komið árið 2005. Mér finnst svo svakalega stutt síðan allir voru að gera í buxurnar yfir 2000-vandananum, sem aldrei gerði vart við sig, en síðan eru víst liðin fimm ár. Annars eru þetta búin að vera yndisleg jól og áramót hjá mér, þrátt fyrir nokkuð stífa dagskrá. Jólaboð og heimsóknir hafa tekið sinn tíma og fór ég meira að segja alla leið norður á Sauðárkrók til að kíkja í eitt jólaboð. Í leiðinni kíkti ég við hjá ömmu og afa á Blönduósi, en það var orðið mjög langt síðan ég sá þau síðast. Í gær fór ég svo í brúðkaup þeirra Áslaugar og Nuno. Athöfnin í Dómkirkjunni var mjög falleg. Ég söng tvö lög og gekk söngurinn bara nokkuð vel. Eftir athöfnina var síðan veisla í Kornhlöðunni með frábærum mat. Finnur greyið missti af veislunni þar sem hann fór aftur út í gærmorgun. Það er víst vinnudagur í dag, þannig að hann gat ekki stoppað lengur við á klakanum. Ari bróðir fór svo út í dag og nú er dvöl mín líka senn á enda, en ég fer aftur út á fimmtudagsmorgun. Þó það sé nú gott að vera heima hjá mömmu og pabba, þá verður ljúft að komast aftur út í litlu íbúðina okkar.

 
miðvikudagur, desember 08, 2004
  Fimm dagar.... Það er orðið allt of langt síðan ég hef bloggað. Ég neyðist því til að skrifa eitthvað hérna inn, þó svo ég hafi svo sem ekki frá neinu markverðu að segja.
Nú styttist aldeilis í að ég komi heim, það eru ekki nema fimm dagar í það. Ég var upphaflega búin að kaupa far heim þann 14. des., en flýtti ferðinni um einn dag svo ég gæti verið samferða vini mínum. Það er bara svo leiðinlegt að fljúga einn. Mér finnst reyndar allt of stutt í heimkomuna. Það er svo mikið sem ég á eftir að gera. Ég ætla að reyna að gera smá jólahreingerningu (svo það lendi ekki allt á Finni greyinu) og svo eru jólagjafakaupin eiginlega öll eftir. Ég þarf víst líka að reyna að finna einhverja brúðargjöf. Mér barst nefnilega óvænt boðskort í gær frá Áslaugu vinkonu. Hún er að fara að gifta sig 2. jan. og ég vissi ekki einu sinni að það stæði til. Það er því eitthvað sem segir mér að ég þurfi að fara að vera duglegri við að hringja í vini mína heima. Ég ætla að reyna að klára þessi gjafakaup í dag, því svo er ég að vinna á morgun og helgin fer svo öll í söng og skrall. Hinir árlegu tónleikar íslenskra, grænlenskra og færeyskra kóra eru nefnilega á laugardaginn og svo er partý á eftir í Færeyingahúsinu. Þar ætlar Dísa litla að sýna hvað hún kann í færeyskum hringdansi.
 

online

Blogg beint fra Köben

Blogg
 • Gengið
 • Finnsi minn
 • Arndís frænka
 • Guðinn í Köben
 • Berglind Rós
 • Óli bróðir
 • Fríða systir
 • Ragna + Halldór
 • Svana beib
 • Soffía
 • Myndir
  Free Photo Albums from Bravenet Free Photo Albums from Bravenet

  Gestabók
  Sign Guestbook

  View Guestbook

  Eldra blogg
  október 2003 / nóvember 2003 / desember 2003 / janúar 2004 / febrúar 2004 / mars 2004 / apríl 2004 / maí 2004 / júní 2004 / júlí 2004 / september 2004 / október 2004 / nóvember 2004 / desember 2004 / janúar 2005 / febrúar 2005 / mars 2005 / apríl 2005 /


  Powered by Blogger